Gagnafrumskógur

Nýjustu tölur Hagstofunnar um rannsóknir og þróun í byggingariðnaði eru í dag frá árinu 2018.

Á netinu gengur nú fólks á milli heimskort sem sýnir í rauntíma staðfest tilfelli kórónavírussins og útbreiðslu hans um heiminn. Kortið er unnið af kerfisvísinda- og verkfræðistofnun John Hopkins háskóla. Það er auðvitað uggvænlegt að fylgjast með veirunni fikra sig eftir heimskortinu og vonandi tekst að koma böndum á hana áður en hún veldur meiri skaða en orðið er. En það er nauðsynlegt að þetta sé hægt því gagnsemi og mikilvægi góðra gagna er gríðarleg.

Kortið er gríðarlega fróðlegt og hjálpar manni að setja atburðarás sem á sér stað í þessum töluðum orðum í samhengi.

Gagnaöflun og skýr framsetning gagna eru lykillinn að framþróun í dag. Upplýsingar hjálpa okkur að skilja heiminn og taka ákvarðanir. Samkvæmt OECD er aðgengi að góðum tölulegum upplýsingum um samfélagið ein af stærstu breytunum til að auka hagvöxt, nýsköpun og framþróun í samfélaginu. Eitt af því sem mun ráða því hverjum reiðir best af í fjórðu iðnbyltingunni sem nú stendur yfir er það hverjum tekst að nýta gögn jafnóðum og þeirra er aflað sér til hagsbóta og gera þannig umhverfi sitt skilvirkara og betra.

Opinberar stofnanir reknar fyrir skattfé leika þarna og munu leika stórt hlutverk. Þær eiga að hafa skýr markmið og góðan skilning á hlutverki sínu.

Hagstofa Íslands er gott dæmi um stofnun með skýrt hlutverk. Hún er miðstöð opinberrar hagskýrslugerðar og á að safna og miðla tölulegum upplýsingum um samfélagið. Vel skilgreint hlutverk Hagstofunnar mætti í raun vera mörgum öðrum stofnunum fyrirmynd. Skýrt hlutverk minnkar sóun á tíma og fjármunum og gefur starfsfólki tilgang og umboð til að vinna góð verk.

Hagstofan er mikilvæg og margir treysta á hennar gögn við skipulag og ákvarðanatöku víða í samfélaginu. Þess vegna er brýnt að upplýsingarnar sem þaðan koma séu nýjar, ítarlegar og aðgengilegar svo hægt sé að byggja góðar spár og fá skýra mynd af stöðunni hverju sinni.

Byggingariðnaðurinn er eitt dæmi um grein sem hefur mikinn hag af ítarlegum og nýjum gögnum. Nýjustu tölur Hagstofunnar um rannsóknir og þróun í byggingariðnaði eru í dag frá árinu 2018. Það er engin leið að komast að því hversu miklum fjármunum er verið að verja í dag í slík verkefni. Tölur um húsnæði í byggingu eru sömuleiðis frá því herrans ári. Ég held við vitum öll að húsnæðismarkaðurinn er á mikilli og sífelldri hreyfingu og að tveggja ára gamlar tölur hafa vægast sagt takmarkað notagildi í því samhengi.

Við þetta bætist svo upplifun notenda, sem er því miður sú að takmarkaður aðgangur er að grunngögnum, framsetning efnis er ónotendavæn og óþarflega flókin auk þess sem gjöld eru innheimt fyrir miðlun gagna milli ríkisstofnana. Peningurinn er færður úr einum vasa í annan.

Nýsköpun, rannsóknir og þróun spila einn stærsta þáttinn í því að leysa þau vandamál sem við sem samfélag horfumst í augu við í dag. Þetta er lykillinn að því að færa okkur áfram í þeim ýmsu áskorunum sem við stöndum frammi fyrir á næstu árum, t.d. í umhverfismálum. Aðgengi að opinberum gögnum spilar stórt hlutverk í því að stuðla að nýsköpun og vexti atvinnulífsins.

Hagstofan lýsir sjálfri sér sem framsækinni þekkingarstofnun og segist vinna að stöðugum umbótum til að veita aðgengilegar, áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar. Það er metnaðarfullt markmið sem þarf að uppfylla sem fyrst til að auka nýsköpun og vöxt í samfélaginu. 

 

Höfundur er verkefnastjóri Byggingavettvangsins.

Greinin var upphaflega birt hér.

Í takt við tímann

Árið 2020 er hafið og 21. öldin orðin fullorðin. Við slík tímamót er vert að líta um öxl á þær viðamiklu breytingar sem síðustu tveir áratugir hafa fært okkur. Það eru þó ekki endilega breytingar sem sumir sáu fyrir sér – það bólar til dæmis enn ekkert á fljúgandi bílum. Tækninni hefur þó fleygt fram á öllum sviðum atvinnulífsins sem hefur breytt í leiðinni áherslum fólks á lífsgæði og samfélagið í heild.


Byggingariðnaðurinn hefur löngum leitt breytingar í heiminum og hefur hugmyndaauðgi í arkitektúr og skipulagsmálum gjörbreytt borgum í takti við nýjar áherslur fólksins sem þar býr. Þarfirnar breytast, meðvitund eykst fyrir nærumhverfinu og áhrif á lífsgæði og heilsu skipta sífellt meira máli.


Mikil uppbygging hefur átt sér stað hér á landi á undanförnum árum en betur má ef duga skal. Byggja þarf 55 þúsund íbúðir til viðbótar um land allt ef mæta á þeirri þörf sem blasir við næstu þrjátíu árin. Þá er ótalin uppbygging í þjónustu og iðnaði.


Það eru reglurnar sem marka byggingaraðilum rammann. En til þess að uppbyggingin gagnist til framtíðar þarf bæði framsýni og sveigjanleika á vettvangi stjórnvalda sem setja þessar reglur. Byggingaraðilar þurfa að hafa svigrúm til að koma nýjum hugmyndum og betri lausnum í framkvæmd til að tryggja vandað húsnæði í takt við tímann. Regluverkið má ekki tefja framfarir, nýsköpun eða uppbyggingu


Byggja þarf 55 þúsund íbúðir til viðbótar um land allt ef mæta á þeirri þörf sem blasir við næstu þrjátíu árin.

Í lok síðasta árs kynnti ráðherra húsnæðismála ítarlegar útfærslur Byggingavettvangsins á tillögum átakshóps ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum sem stuðla að umbótum í byggingariðnaði, og breytingar á lögum og reglum sem tryggja eiga umrætt svigrúm fyrir byggingaraðila.


Fyrsta stóra skrefið var tekið um áramótin þegar notkun Byggingargáttar var gerð að lagaskyldu fyrir sveitarfélögin. Það skiptir sköpum fyrir alla sem koma að byggingu húsnæðis því gáttin flýtir fyrir útgáfu leyfa og skilum gagna, auðveldar eftirlit, bætir samskipti og eykur aðgengi að upplýsingum um stöðu uppbyggingar húsnæðis í landinu. Áframhaldandi vinna mun eiga sér stað á vettvangi framkvæmdarvalds og löggjafans en Byggingavettvangurinn mun fylgja málinu þétt eftir.


Við erum á réttri leið við upphaf nýs áratugar en tækninni fleygir sífellt hraðar fram þrátt fyrir að fljúgandi bílar séu ekki enn komnir fram á sjónarsviðið. Stjórnvöld, byggingaraðilar og samfélagið allt þarf því að vera á tánum gagnvart nýjum straumum og stefnum sem í fyrstu virðast umbylta öllu því sem við áður þekktum en á endanum bæta lífsgæði okkar og búa okkur betra umhverfi. Til þess þarf einfalt regluverk sem leyfir góðum hugmyndum og nýsköpun á sviði byggingariðnaðarins að verða að veruleika.


Höfundur er verkefnastjóri Íslenska byggingarvettvangsins.

Greinin var upphaflega birt hér.

Ráð­herr­a kynnt­i fyrst­u skref að betr­i bygg­ing­a­mark­að­i

Skýrsla sem gefin var út í dag fjallar um útfærslur á drögum átakshóps ríkisstjórnarinnar að úrbótum í húsnæðismálum. Hún fjallar meðal annars um að auka þátt rafrænnar stjórnsýslu og ráðast eigi í sértækar aðgerðir til að lækka byggingakostnað.


Styttri byggingartími, einfaldara regluverk, lækkun byggingarkostnaðar og stóraukin rafræn stjórnsýsla í byggingariðnaði eru meðal tillaga sem kynntar voru á fundi Byggingavettvangsins í morgun.


Tillögurnar miða að því með einum eða öðrum hætti að bæta og einfalda regluverk og ferla og leggja með því grunninn að því að hægt verði að byggja húsnæði á hagkvæmari hátt, sem skili sér í lægra húsnæðisverði, segir í tilkynningu.


Rafrænt ferli

Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, kynnti tillögurnar sem eru fjórar. Í þeim er gert ráð fyrir að Byggingargátt verði gerð að lagaskyldu en með því opnast möguleiki á að færa skil, eftirlit og kærur í rafrænt ferli, nýta rafrænar undirskriftir og fá þannig yfirsýn yfir byggingamarkaðinn á einum stað og spara sömuleiðis tíma sem fer í að ferðast með pappíra milli aðila.


Þá er gert ráð fyrir að tekin verði upp flokkun mannvirkja sem mun auka sveigjanleika og stytta byggingartíma, einkum einfaldari mannvirkja. Einnig er gert ráð fyrir ákvæði um faggiltar skoðunarstofur sem mun auðvelda úthýsingu eftirlits til sérhæfðra aðila.


Að lokum er lagt til að kærumál verði færð í sérstaka kærunefnd bygginga- og skipulagsmála og kærufrestir styttir. Þannig er ætlunin að málsmeðferðatími kæra styttist en málsmeðferðartími er nú umtalsvert lengi en lög leyfa og hefur verið að lengjast mjög síðustu misseri.

Samstaða er um að færa byggingarmarkaðinn inn í framtíðina

„Betri húsnæðismarkaður, meiri yfirsýn yfir það sem er að gerast á byggingamarkaðnum, einfaldara ferli og aukin gæði er eitthvað sem kemur okkur öllum við. Það er mjög mikilvægt að allir þessir aðilar hafa komið sér saman um næstu skref og mikil samstaða er um að færa byggingamarkaðinn inn í framtíðina, það hef ég fundið í öllu þessu ferli, og ekki síst á fundinum í morgun,“ segir Sandra Hlíf Ocares, verkefnastjóri Byggingavettvangsins.


Byggingavettvangurinn er samráðsvettvangur hagaðila í byggingariðnaði. Skýrsla sem gefin var út í dag fjallar um útfærslur á drögum átakshóps ríkisstjórnarinnar að úrbótum í húsnæðismálum og niðurstöður vinnu átakshópsins og samráðsdags sem haldinn var á vördögum þar sem helstu hagsmunaaðilar í byggingar- og mannvirkjagerð tóku þátt. Í skýrslunni er jafnframt fjallað um nauðsyn þess að auka samvinnu stjórnvalda og annarra hagaðila þegar kemur að skipulags- og byggingarmálum. Þá er einnig fjallað um að auka þátt rafrænnar stjórnsýslu og ráðast í sértækar aðgerðir til að lækka byggingakostnað, m.a. með breytingum á regluverki.

Greinin var upphaflega birt hér.

Fyrstu skref að betri byggingamarkaði

Byggingavettvangurinn lagði fram á fundi í nóvember tillögur sem snúa að úrbótum í byggingariðnaði á Íslandi. Á fundinum kynnti Ásmundur Einar Daðason, ráðherra byggingamála fjórar tillögur sem allar snúa að því að búa til betri og skilvirkari byggingariðnað.


Nýjar tillögur á grunni skýrslu og samráðsdags

Mikil byggingaþörf blasir við á landinu næstu áratugi en á sama tíma eru uppi síauknar kröfur um hagkvæmara og fjölbreyttara húsnæði, aukið tillit til umhverfissjónarmiða, einfaldleika og skilvirkni og aukið svigrúm fyrir stafrænar lausnir og gagnaúrvinnslu.


Tillögurnar voru unnar á grunni skýrslu átakshóps sem út kom árið 2019 um bætta stöðu á húsnæðismarkaði og samráðsdags Byggingarvettvangsins þar sem hagaðilum bauðst að koma sjónarmiðum sínum að. Í þeirri vinnu komu fram nokkrir þættir þar sem úrbóta er þörf. Þeirra á meðal voru dreifing málefna innan stjórnsýslunnar, skortur á flokkun mannvirkja, langur málsmeðferðartími kæra, og skortur á rafrænni stjórnsýslu.

Betri byggingariðnaður með rafrænni stjórnsýslu og samtali

Tillögurnar sem lagðar voru til miða allar að því að nýta rafræna stjórnsýslu og samtal hagaðila. Þannig er þeim ætlað að einfalda ferla og regluverk og stytta byggingatíma. Þeim er ætlað að lækka byggingakostnað og þar með húsnæðisverð, auka skilvirkni, efla og einfalda eftirlit og stuðla að betri samvinnu og samtali aðila í greininni.


Tillögurnar eru alls fjórar. Lagt var til að gera Byggingagátt að lagaskyldu við húsbyggingar, að tekin verði upp ný flokkun mannvirkja, að ákvæði um faggiltar skoðunarstofur verði fellt niður og að málsmeðferðartími kæra verði styttur og einfaldaður.


Sækja skýrslu

Sækja kynningu fundarins

Greinin var upphaflega birt hér.

Rafræn skref í stjórnsýslunni lækka kostnað

„Heilt yfir snúa útfærslurnar að því að einfalda regluverk og verkferla til þess að byggingarferlið verði skilvirkara og framleiðni aukin. Þannig náum við að stytta byggingartíma og lækka byggingarkostnað sem skilar sér í lægra húsnæðisverði,“ segir Sandra Hlíf Ocares, verkefnastjóri Byggingavettvangsins.

Íslenski Byggingavettvangurinn hefur boðað til fundar á Grand Hótel næsta mánudag. Þar verða kynntar fyrstu útfærslur á tillögum átakshóps ríkisstjórnarinnar um úrbætur í húsnæðismálum er snúa að byggingarmálum með auknum þætti rafrænnar stjórnsýslu og einföldun regluverks.

„Við höfum verið að byggja of einsl­eitt húsnæði þar sem regluverkið hefur m.a. ekki heimilað ákveðna nýsköpun né veitt svigrúm til að byggja hagkvæmar íbúðir. Ég er sannfærð um að þessar metnaðarfullu tillögur sem verða kynntar á mánudaginn munu auðvelda byggingu húsnæðis af því tagi sem hefur verið vöntun á,“ segir Sandra. Þar leikur rafræn stjórnsýsla lykilhlutverk.

Frá árinu 2011 hefur átt sér stað uppbygging á rafrænni byggingargátt með það að markmiði að hægt sé að gefa út byggingarleyfi rafrænt, með því að efla þá vinnu og víkka hlutverk þeirrar gáttar munu ferlar verða einfaldari, skilvirkni og gagnsæi aukast.

„Við viljum ganga inn í fjórðu iðnbyltinguna með rafrænni stjórnsýslu, með einföldum hlut eins og að skylda sveitarfélögin til að nota Byggingargáttina og að innleiða rafrænar undirskriftir inn í gáttina má stytta byggingartíma og lækka byggingarkostnað sem síðan skilar sér í lægra byggingarverði,“ segir Sandra. Hún bætir við að það muni hafa meiri áhrif en marga grunar og tekur dæmi.

„Eins og staðan er í dag þarf að prenta allar teikningar út, og keyra með afritin til stofnana til að fá stimpla. Eins og gefur að skilja er það tímafrekt og dýrt. Annað dæmi er að svo hægt sé að fá nákvæmar tölur um það hversu mikið af húsnæði er í byggingu, þarf starfsmaður Samtaka iðnaðarins að keyra í þrjár vikur um landið og handtelja íbúðir í byggingu. Með öflugri innleiðingu á rafrænum lausnum eins og Byggingargáttin er munu þessir hlutir heyra sögunni til.“

Spurð hvort mikil samstaða sé um breytingarnar sem útfærslur Byggingarvettvangsins fela í sér segir Sandra að svo sé. „Það er mikill einhugur um að nú sé kominn tími til að leysa þessi mál enda er húsnæði ein stærsta fjárfesting fólks á æviskeiði þess. Stjórnvöld hafa lagt aukna áherslu á að létta á regluverkinu í byggingariðnaði og skerpa á regluverkinu og tillögurnar sem komu fram í skýrslu átakshópsins gefa skýr skilaboð um að það eigi að taka þetta föstum tökum,“ segir Sandra.

Íslenski byggingavettvangurinn var settur á stofn árið 2016 sem samstarfsvettvangur fyrirtækja og stofnana sem koma að byggingarmálum. Hlutverk Byggingavettvangsins var síðan aukið á þann hátt að auk þess myndi hann fjalla um skipulagsmál í tengslum við byggingu íbúðarhúsnæðis. Sandra segir að útfærslurnar sem kynntar verði á mánudaginn snúi eingöngu að byggingarmálum. Skipulagsmálin verði tekin fyrir eftir áramót.

Greinin var upphaflega birt hér.

Allir þurfa þak yfir höfuðið

Þörfin fyrir hagkvæmt húsnæði hefur aukist í takt við uppbyggingu landsins síðustu ár. Stærstu sveitarfélögin hafa uppi metnaðarfull áform um húsnæðisuppbyggingu á næstu árum og fátt bendir til að hægja muni á henni á næstunni. Áætlað er að byggja þurfi 55 þúsund íbúðir til ársins 2050. Á sama tíma eru umhverfismál komin í forgang, miklar og háværar raddir eru uppi um búsetuúrræði fyrir alla hópa, of háan byggingakostnað og óþarflega langan byggingatíma. Hálfgert frumskógarlögmál er gjarnan sagt ríkja á húsnæðismarkaði og fólk kvartar undan ýmsum hindrunum í veginum við að eignast húsnæði, m.a. að framboðið sé takmarkað. Vitað er að byggingariðnaðurinn er viðkvæmari fyrir sveiflum en hagkerfið almennt. Slíkar sveiflur skapa þjóðhagslegan kostnað.


Vandinn kann að hljóma í eyrum sumra eins og að við viljum ekki bara eiga kökuna og borða hana, heldur hafa hana stærri, baka hana á örfáum mínútum og hafa hana úr 100 prósent lífrænum hráefnum. Þó eru leiðir færar til að ná miklu hagræði á skömmum tíma. Tækifærin felast í samtali hagaðila, einfaldara regluverki og skilvirkari, rafrænni stjórnsýslu. Allir helstu hagaðilar í byggingariðnaði á Íslandi hafa undanfarin misseri unnið að því að greina markaðinn og gera tillögur að úrbótum um hvernig megi byggja hagkvæmar íbúðir til að mæta eftirspurn.


Létta þarf regluverksfarganið

Byggingavettvangurinn, samráðsvettvangur byggingariðnaðarins, atvinnulífsins og opinberra aðila, spilar í þessu efni veigamikið hlutverk en honum hefur verið falið að útfæra og vinna tillögur í skipulags- og byggingarmálum sem voru lagðar fram í skýrslu átakshóps ríkisstjórnarinnar að bættum húsnæðismarkaði. Útfærsla á þeim tillögum verður kynnt á næstu vikum. Það er til mikils að vinna að efla samkeppnishæfni byggingariðnaðarins þannig að hægt sé að byggja hagkvæmari íbúðir. Byggingavettvangurinn og aðilarnir sem að honum standa eru þannig í lykilstöðu til að leiða þetta mikilvæga verkefni.


Fordæmin eru til staðar. Nægir að nefna aðgerðaáætlun ráðherra atvinnuvegaráðuneytisins um einföldun regluverks sem kynnt var á dögunum. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, iðnaðarráðherra, hefur auk þess hrint af stað vinnu sem snýr sérstaklega að ferðamálum og byggingariðnaðinum í samstarfi við OECD. Þar hefur m.a. komið í ljós að regluverkið í greinunum tveimur er eitt það þyngsta meðal ríkjanna sem þar eru undir. Ísland er of lítið til að slíkt gangi upp.


Ef við stöndum rétt að vinnunni er ekkert því til fyrirstöðu að vandinn á húsnæðismarkaði verði úr sögunni; að hægt verði að byggja upp vandað húsnæði hraðar og með hagkvæmari hætti til hagsbóta fyrir alla. Ekki síst fyrir almenning í landinu. Því allir þurfa þak yfir höfuðið.

Höfundur er verkefnastjóri Byggingavettvangsins.


Greinin var upphaflega birt hér.

Einhugur um að leysa hús­næðis­vandann

Markmið fundarins var að marka skýra stefnu í húsnæðismálum.


Íslenski byggingavettvangurinn stóð fyrir samráðsdegi á mánudaginn þar sem fulltrúar stjórnvalda, stofnana og byggingariðnaðarins fóru yfir tillögur er varða skipulags og byggingarmál.


Sandra Hlíf Ocares, verkefnastjóri Íslenska byggingarvettvangsins segir í samtali við Fréttablaðið að vinnan hafi gengið vel.


„Við vorum að vinna að aðgerðum út frá þeim tillögum sem komu fram í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum. Það tókst mjög vel og það var einhugur um að nú sé kominn tíni til að leysa þessi mál,“ segir Sandra.

Helstu niðurstöðu fundarins voru að horfa til stafrænnar og rafrænnar stjórnsýslu til að einfalda verkferla og gera afgreiðslu fljótlegri og ódýrari.


„Við þurfum að auðvelda það að byggja húsnæði af því tagi sem hefur verið vöntun á, til dæmis húsnæði fyrir fyrstu kaupendur og tekjulága,“ segir Sandra. „Við höfum verið að byggja of stórar íbúðir á sömu dýru svæðunum. Það hefur einfaldlega ekki borgað sig að byggja litlar og hagkvæmar íbúðir.“

Íslenski byggingavettvangurinn (BVV) var settur á stofn árið 2016 sem samstarfsvettvangur fyrirtækja og stofnana sem koma að byggingarmálum. Hlutverk Byggingavettvangsins verið aukið á þann hátt að auk þess mun hann fjalla um skipulagsmál í tengslum við byggingu íbúðarhúsnæðis.

Greinin var upphaflega birt hér.

Íslendingar skoði ódýrari, hraðvirkari og umhverfisvænni kosti við smíði fjölbýlisíbúða og húsa

Hannes Frímann Sigurðsson, verkefnastjóri Byggingarvettvangs, segist vona og trúa að íslenskur iðnaður og fyrirtæki muni taka vel við sér og leita nýrra leiða við smíði fjölbýlisíbúða og -húsa hér á landi. Hann vill að litið verði til reynslu Svía sem sýni að til séu bæði hraðvirkari, ódýrari og umhverfisvænni kostir en hefðbundin uppsteypa húsa sem einkennt hafa íslenskan byggingariðnað síðustu áratugina.


Á dagskrá Guðna Th. Jóhannessonar forseta í opinberri heimsókn forsetahjónanna til Svíþjóðar fyrr í mánuðinum var meðal annars heimsókn til byggingafélagsins Folkhem í Sundbyberg, norðvestur af Stokkhólmi.


Þar kynntu Guðni og Karl Gústaf Svíakonungur sér vistvænar húsbyggingar í Stokkhólmi og skoðuðu fjölbýlishús fyritækisins úr timbri, eða svokölluð CLT (Cross Laminated Timber) límtréhús.


„I can’t find any hängrännor“
Forsetinn og konungurinn hlýddu þar á forsvarsmenn og hönnuði fyrirtækisins flytja ræður og sýna myndir af húsum þess. Andrúmsloftið var létt þó að gestir hafi verið prúðbúnir.


„I can’t find any hängrännor,“ sagði Karl Gústaf léttur í bragði þegar hann tók eftir því að þakrennur voru hvergi sjáanlegar á myndunum. Mikill hlátur braust þá út í salnum eftir athugasemd konungsins og útskýrði hönnuðurinn Gert Wingårdh að þær væru vissulega til staðar en faldar.


Lægra verð góður hvati
Hannes Frímann fór ásamt öðrum frá Íslandi sömuleiðis til Svíþjóðar í október síðastliðnum þar sem þau kynnti sér Folkhem og fleiri sænsk fyrirtæki sem fást við framleiðslu vistvænna og ódýrra íbúða, húsa – einingahúsa, smáhýsa og húsa úr CLT límtré.


Íslenska byggingarvettvangnum er ætlað að efla innviði, auka samkeppnishæfni, efla samtal innan byggingageirans um hagsmunamál hans og greina tækifæri til að auka framleiðni. Um er að ræða samstarfsverkefni Íbúðalánasjóðs, Mannvirkjastofnunar, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Samtaka Iðnaðarins.


Hannes Frímann segir að smíði húsa úr CLT límtré séu að þróast mikið og að verða bæði hraðvirkari, ódýrari og umhverfisvænni en bygging húsa með hefðbundinni uppsteypu líkt og við Íslendingar þekkjum best. „Verðið eitt og sér ætti því að vera góður hvati til að velja þá leið. Um leið og varan er tilbúin í verksmiðjunni er þetta mjög fljótuppsett. Þá er þetta í raun bara eins og legó. Þetta raðast bara upp sem heilir veggir, er einfalt í öllum frágangi.“


Hann segir límtréhúsin hafa marga kosti, meðal annars hvað varðar brunaþol. „Þeir setja meðal annars upp úðarakerfi í íbúðirnar til að auka brunaþol og svo er þekkt að þegar viður brennur, þá kolar hann sig og ver sig fyrir eldi í langan tíma. Það er margt sem mælir með þessu. Kolefnasporið er líka minna en í steypunni þegar horft er til hefðbundinna aðferða. Við viljum og eigum að beina sjónum okkar iðnaðarmanna og fyrirtækja að fara þessa leið.“


Vandað, hagkvæmt, hratt
Hannes Frímann segir að þegar Byggingavettvangurinn verður til árið 2015 þá var verkefnið „Vandað, hagkvæmt, hratt“ eitt þeirra sem kom inn á borð hans. Það byggir á samþykkt fyrri ríkisstjórnar um aðgerðir á sviði húsnæðismála. „Hugmyndin var að reyna að vekja athygli á möguleikum sem eru til hér heima, en líka erlendis, þar sem hægt er að byggja á öðrum og lægri verðum en fólk hefur verið að horfast í augu við hér á Íslandi.“


Byggingavettvangurinn hefur frá stofnun staðið fyrir fyrirlestrum um þá möguleika sem væru í boði í samstarfi við fjölda aðila. „Síðan var meiningin að við færum erlendis til að skoða það besta sem væri að í boði þar. Svíþjóð stendur svolítið upp úr og hafa Svíarnir verið að „mastera“ þetta. Þar má meðal annars nefna BoKlok – þessar verksmiðjuframleiddu ódýru íbúðir og hús úr timbri úr smiðju IKEA – Folkhem og Junior Living, Snabbahus og Kombohus svo einhver eru nefnd. Við fórum með hóp Íslendinga – framleiðendur, hönnuði, verktaka og fleiri – út til Svíþjóðar í haust til að skoða þessa framleiðslu. Við reyndum að svara spurningunni: Af hverju erum við ekki að gera þetta hérna heima? Hvernig getum við náð tökum á slíkri framleiðslu hérna heima og reynt að gera þetta eins og þeir?“


Hagkvæmari markaður úti
Hannes segir að sænsku fyrirtækin hagnist á því að vera með sterka kaupendur. Ef einhver ætli að fjöldaframleiða á Íslandi þá sé hámarkspöntunin kannski tíu hús. „Þegar hið opinbera er að kaupa í Svíþjóð þá eru pöntuð fimm hundruð stykki eða eitthvað í þá veru. Þar eru forsendur til staðar fyrir fjöldaframleiðslu.“


Hannes Frímann segir að starfsmenn Mannvirkjastofnunar hafi einnig farið til Svíþjóðar í haust til að meta húsin og hafi þeir talið að húsin stæðust íslenskar kröfur með litlum eða fáum breytingum. „Eftir þessar heimsóknir þá teljum við allar forsendur vera fyrir að framleiða svona íbúðir hérna heima eða flytja þessi hús hingað til lands. Þannig erum við að reyna að ýta einhverjum af stað til að ráðast í slíka framleiðslu.


Margir hafa hins vegar lýst yfir áhyggjum að þeir fái ekki lóðir undir þetta, en Reykjavíkurborg tók nýlega af skarið og auglýsti eftir hugmyndum að nýju húsnæði á nokkrum svæðum í Reykjavík. Þetta allt, þessir samverkandi þættir, leiðir vonandi til þess að við gætum fengið að sjá húsnæði í þessu formi – kannski þrjátíu til sextíu fermetra og hentar mjög mörgum – rísa á tiltölulega skömmum tíma.“


Hvatar til að byggja á umhverfisvænni máta
Hannes Frímann segir að CLT límtréhúsin á borð þau sem Folkhem – fyrirtækið sem forsetinn heimsótti ásamt Svíakonungi – hafi mjög verið að ryðja sér til rúms að undanförnu. „Þannig hafa til að mynda borgaryfirvöld í Växjö í Smálöndum komið á grænum viðmiðum og hvötum til að fjölga smíði timburhúsa í borginni, til dæmis með lægri lóðakostnaði til þeirra sem ráðast í smíði umhverfisvænni húsa.“


Hann segir að sveitarfélög á Íslandi séu aðeins að kippa við sér og kveðst hann vona til að sjá að hús úr límtré og forsmíðaðar íbúðir eða einingahús, líkt og þau sem framleidd eru í Svíþjóð, fari í auknum mæli að rísa hér á landi.


„Ég bind alveg svakalegar vonir við þetta útspil Reykjavíkurborgar og ég vona að íslensk fyrirtæki og iðnaður taki við sér þannig að hægt sé að bjóða upp á ódýrara húsnæði. Við sáum fullbúin fjörutíu fermetra íbúðir þarna úti þar sem kostnaðurinn nam innan við sex milljónir. Við spurðum okkur: „Hvað erum við eiginlega að gera hérna heima?“ Það eru greinilega til ódýrari lausnir sem geta hentað í mörgum tilfellum hér hjá okkur eins og hjá þeim,“ segir Hannes.


Vilja auka áhuga Íslendinga á timburhúsum
Håkan Juholt, sendiherra Svíþjóðar á Íslandi, heimsótti einnig Folkhem ásamt forsetanum og konungi. Hann segir í samtali við sænska blaðið Mitt i Sundbyberg að útflutningur á timbri til húsbygginga á Íslandi væri nokkuð sem Svíar legðu áherslu á að auka.


Heimsókn forseta til að skoða timburhúsin væri mikilvægur liður í dagskránni og sagðist sendiherrann vona að áhugi á smíði timburhúsa á Íslandi myndi aukast þegar fram í sækir.


Juholt sagði við blaðið að Íslendingar efist mikið um ágæti timburbygginga eftir fjölda stórbruna í gegnum tíðina. Lítil hefð sé fyrir smíði húsa úr timbri, sér í lagi vegna umtalsverðs skorts á trjám á eyjunni. „Það er mikill húsnæðisskortur og útbreidd þéttbýlismyndun á Íslandi og áhuginn er mikill fyrir sjálfbæra húsasmíði. Þess vegna er mjög mikilvægt fyrir okkur að sýna þessar góðu fyrirmyndir,“ segir Juholt og vísar þar í timburhús Folkhem í Sundbyberg og fleiri sænskra fyrirtækja.


Að neðan má sjá innslag úr þætti Gulla Helga þar sem hann skoðar framleiðslu smáhýsa hjá Junior Living í Kungsör, vestur af Stokkhólmi.


Greinin var upphaflega birt hér.