Einhugur um að leysa hús­næðis­vandann

Markmið fundarins var að marka skýra stefnu í húsnæðismálum.


Íslenski byggingavettvangurinn stóð fyrir samráðsdegi á mánudaginn þar sem fulltrúar stjórnvalda, stofnana og byggingariðnaðarins fóru yfir tillögur er varða skipulags og byggingarmál.


Sandra Hlíf Ocares, verkefnastjóri Íslenska byggingarvettvangsins segir í samtali við Fréttablaðið að vinnan hafi gengið vel.


„Við vorum að vinna að aðgerðum út frá þeim tillögum sem komu fram í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum. Það tókst mjög vel og það var einhugur um að nú sé kominn tíni til að leysa þessi mál,“ segir Sandra.

Helstu niðurstöðu fundarins voru að horfa til stafrænnar og rafrænnar stjórnsýslu til að einfalda verkferla og gera afgreiðslu fljótlegri og ódýrari.


„Við þurfum að auðvelda það að byggja húsnæði af því tagi sem hefur verið vöntun á, til dæmis húsnæði fyrir fyrstu kaupendur og tekjulága,“ segir Sandra. „Við höfum verið að byggja of stórar íbúðir á sömu dýru svæðunum. Það hefur einfaldlega ekki borgað sig að byggja litlar og hagkvæmar íbúðir.“

Íslenski byggingavettvangurinn (BVV) var settur á stofn árið 2016 sem samstarfsvettvangur fyrirtækja og stofnana sem koma að byggingarmálum. Hlutverk Byggingavettvangsins verið aukið á þann hátt að auk þess mun hann fjalla um skipulagsmál í tengslum við byggingu íbúðarhúsnæðis.

Greinin var upphaflega birt hér.