Gagnafrumskógur

Nýjustu tölur Hagstofunnar um rannsóknir og þróun í byggingariðnaði eru í dag frá árinu 2018.

Á netinu gengur nú fólks á milli heimskort sem sýnir í rauntíma staðfest tilfelli kórónavírussins og útbreiðslu hans um heiminn. Kortið er unnið af kerfisvísinda- og verkfræðistofnun John Hopkins háskóla. Það er auðvitað uggvænlegt að fylgjast með veirunni fikra sig eftir heimskortinu og vonandi tekst að koma böndum á hana áður en hún veldur meiri skaða en orðið er. En það er nauðsynlegt að þetta sé hægt því gagnsemi og mikilvægi góðra gagna er gríðarleg.

Kortið er gríðarlega fróðlegt og hjálpar manni að setja atburðarás sem á sér stað í þessum töluðum orðum í samhengi.

Gagnaöflun og skýr framsetning gagna eru lykillinn að framþróun í dag. Upplýsingar hjálpa okkur að skilja heiminn og taka ákvarðanir. Samkvæmt OECD er aðgengi að góðum tölulegum upplýsingum um samfélagið ein af stærstu breytunum til að auka hagvöxt, nýsköpun og framþróun í samfélaginu. Eitt af því sem mun ráða því hverjum reiðir best af í fjórðu iðnbyltingunni sem nú stendur yfir er það hverjum tekst að nýta gögn jafnóðum og þeirra er aflað sér til hagsbóta og gera þannig umhverfi sitt skilvirkara og betra.

Opinberar stofnanir reknar fyrir skattfé leika þarna og munu leika stórt hlutverk. Þær eiga að hafa skýr markmið og góðan skilning á hlutverki sínu.

Hagstofa Íslands er gott dæmi um stofnun með skýrt hlutverk. Hún er miðstöð opinberrar hagskýrslugerðar og á að safna og miðla tölulegum upplýsingum um samfélagið. Vel skilgreint hlutverk Hagstofunnar mætti í raun vera mörgum öðrum stofnunum fyrirmynd. Skýrt hlutverk minnkar sóun á tíma og fjármunum og gefur starfsfólki tilgang og umboð til að vinna góð verk.

Hagstofan er mikilvæg og margir treysta á hennar gögn við skipulag og ákvarðanatöku víða í samfélaginu. Þess vegna er brýnt að upplýsingarnar sem þaðan koma séu nýjar, ítarlegar og aðgengilegar svo hægt sé að byggja góðar spár og fá skýra mynd af stöðunni hverju sinni.

Byggingariðnaðurinn er eitt dæmi um grein sem hefur mikinn hag af ítarlegum og nýjum gögnum. Nýjustu tölur Hagstofunnar um rannsóknir og þróun í byggingariðnaði eru í dag frá árinu 2018. Það er engin leið að komast að því hversu miklum fjármunum er verið að verja í dag í slík verkefni. Tölur um húsnæði í byggingu eru sömuleiðis frá því herrans ári. Ég held við vitum öll að húsnæðismarkaðurinn er á mikilli og sífelldri hreyfingu og að tveggja ára gamlar tölur hafa vægast sagt takmarkað notagildi í því samhengi.

Við þetta bætist svo upplifun notenda, sem er því miður sú að takmarkaður aðgangur er að grunngögnum, framsetning efnis er ónotendavæn og óþarflega flókin auk þess sem gjöld eru innheimt fyrir miðlun gagna milli ríkisstofnana. Peningurinn er færður úr einum vasa í annan.

Nýsköpun, rannsóknir og þróun spila einn stærsta þáttinn í því að leysa þau vandamál sem við sem samfélag horfumst í augu við í dag. Þetta er lykillinn að því að færa okkur áfram í þeim ýmsu áskorunum sem við stöndum frammi fyrir á næstu árum, t.d. í umhverfismálum. Aðgengi að opinberum gögnum spilar stórt hlutverk í því að stuðla að nýsköpun og vexti atvinnulífsins.

Hagstofan lýsir sjálfri sér sem framsækinni þekkingarstofnun og segist vinna að stöðugum umbótum til að veita aðgengilegar, áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar. Það er metnaðarfullt markmið sem þarf að uppfylla sem fyrst til að auka nýsköpun og vöxt í samfélaginu. 

 

Höfundur er verkefnastjóri Byggingavettvangsins.

Greinin var upphaflega birt hér.